Litla ljónið barnafataverslun er í eigu hjónanna Herdísar Hermannsdóttur og Guðjóns Unnars Hjálmarssonar og er staðsett í heimahúsi á neðri Brekkunni á Akureyri. 

Hugmyndin um litla netverslun með barnaföt hafði lengi verið til umræðu á heimilinu en snemma árs 2025 ákváðum við að taka bara stökkið og láta reyna á þennan draum. Okkur hafði lengi fundist vanta meiri litagleði í barnafataflóruna hér heima og dóttir okkar hafði átt föt frá Toby Tiger. Þau höfðu reynst okkur vel og við vorum afar hrifin af mýktinni, gæðunum og umfram allt vorum við mjög hrifin af litagleðinni. Því fannst okkur liggja beinast við að hafa samband við Toby tiger og athuga með innflutning á vörunum þeirra.

Við byrjum smátt en vonandi getum við aukið vöruframboðið og umfangið jafnt og þétt. Við vonum innilega að þið verðið jafn hrifin af þessum dásamlega mjúka og litríka barnafatnaði og við.